Rúmlega hundrað óbreyttir borgarar fallnir í Mogadishu

Bardagar standa enn í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu en bardagar hafa nú staðið þar á milli eþíópískra hersveita og liðsmanna íslamista í fjóra daga. Hafa eþíópísku hersveitirnar m.a. skotið flugskeytum frá vel varinni forsetahöllinni Villa Somalia í suðurhluta borgarinnar á hverfi þar sem íslamistar halda til.

A.m.k. fjórir óbreyttir borgarar eru sagðir hafa fallið í Bakara-íbúahverfinu í morgun en flestir almennir borgara hafa nú flúið borgina og hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst áhyggjum af aðbúnaði þeirra.

“Eþíópísku hersveitirnar skjóta á hverfið. Þær vilja jafna það algerlega við jörðu en við höfum ekki séð neina uppreisnarmenn þar. Mörg hús ínágrenninu eru gersamlega ónýt en til allrar hamingju voru eigendur þeirra flúnir,” segir Ali Hassan Aden, íbúi hverfisins.

Mannréttindasamtök í landinu segja að a.m.k. 113 óbreyttir borgarar hafi látið lífið og 229 særast í átökunum undanfarna daga en um 1.000 manns létu lifið í átökum í borginni í mars.

1.500 friðargæsluliðar Afríkusambandsins hafa ekki reynt að stöðva átökin í borginni en þeir hafa helstu flugvelli, hafnir, forsetahöllina og aðalgötuna að stærsta flugvellinum á sínu valdi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert