Clippers jafnaði metin í Dallas

James Harden reynir skot að körfu Dallas í leiknum í …
James Harden reynir skot að körfu Dallas í leiknum í kvöld. Hann skoraði 33 stig. AFP/Tim Warner

Einvígi Los Angeles Clippers og Dallas Mavericks í átta liða úrslitum Vesturdeildar NBA í körfubolta er hnífjafnt eftir fjóra leiki, 2:2, en Clippers vann fjórða leik liðanna í Dallas í kvöld, 116:111.

Dallas komst yfir tveimur mínútum fyrir leikslok, 105:104, en leikmenn Clippers voru sterkari á endasprettinum.

James Harden og Paul George voru allt í öllu hjá Clippers í kvöld og skoruðu 33 stig hvor.

Kyrie Irving var gríðarlega öflugur hjá Dallas og skoraði 40 stig og Luka Doncic var með þrefalda tvennu, 29 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar.

Þar með er ljóst að minnst sex leiki þarf til að útkljá einvígi liðanna sem mætast næst í Los Angeles.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert