Það skiptir engu máli núna

Elisa Pinzan úr Keflavík og Katarzyna Trzeciak hjá Stjörnunni eigast …
Elisa Pinzan úr Keflavík og Katarzyna Trzeciak hjá Stjörnunni eigast við í kvöld. mbl.is/Skúli

Keflavík komst í kvöld í úrslitaeinvígið gegn Njarðvík í Íslandsmóti kvenna í körfubolta eftir æsispennandi oddaleik gegn Stjörnunni í Reykjanesbæ.

Sverrir Þór Sverrisson var að vonum ánægður með lið sitt sem lagði allt í sölurnar í kvöld. Við ræddum við Sverri strax eftir leik:

Var það reynslan sem færði Keflavík farseðilinn í úrslitaeinvígið?

„Já eflaust líka. En aðallega var það barátta og samstaða. Við spiluðum hörkuvörn í síðari hálfleik og svo duttu mikilvæg skot hérna í lokin. En aðallega er það barátta og samstaða sem skilar okkur þessum árangri.“

Varstu heilt yfir ánægður með spilamennsku liðsins í kvöld?

„Já svona heilt yfir. Við byrjuðum ágætlega varnarlega en svo fórum við að leka alltof mikið og Stjarnan náði forskotinu. Það var síðan lagað í síðari hálfleik.“

Eitthvað sem þú hefðir viljað sjá ganga betur í kvöld?

„Ég hefði viljað sjá betri varnarleik í fyrri hálfleik og fara inn í hálfleikinn í forystu. En þetta snérist bara um að vinna leikinn sama hvernig við færum að því og ég er bara ánægður með það.“

Nú er Keflavík að koma út úr fimm leikja seríu á meðan Njarðvík er búið að vera í góðri pásu. Hvernig sérðu úrslitaeinvígið fyrir þér?

„Ég hlakka fyrst og fremst til. Við erum að fara að spila við frábært lið sem er vel mannað. Þetta er bara alveg 50/50-einvígi sem getur farið á hvorn veginn sem er.“

Þið hafið samt unnið Njarðvík í öllum leikjum vetrarins ekki satt?

„Jú en það skiptir engu máli núna. Nú er bara ný keppni að byrja og þetta snýst bara um það sem eftir er af mótinu hjá báðum liðum."

Eru þrír sólarhringar nægilegur tími í endurheimt fyrir fyrsta leik í úrslitaeinvíginu?

„Já það verður bara að vera það. Við tökum rólega daga fram að leik og svo verðum við bara mæta klár á fimmtudaginn,“ sagði Sverrir Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert