Þá mætir fólk á þessa leiki

Danielle Rodríguez var sjóðheit þangað til hún fékk fimmtu villuna.
Danielle Rodríguez var sjóðheit þangað til hún fékk fimmtu villuna. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við byrjuðum illa og svo var sárt að missa Dani af velli,“ sagði Þorleifur Ólafsson þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í samtali við mbl.is í kvöld. Grindavík mátti þola naumt tap, 83:79, á heimavelli gegn Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í Smáranum.

Danielle Rodríguez var sjóðheit í fjórða leikhluta, þangað til hún fékk sína fimmtu villu. Njarðvík gekk á lagið eftir það og sneri leiknum sér í vil.

„Við ætluðum að vinna en það gekk ekki í dag. Það var vont að missa Dani út af en þá verða aðrir að stíga upp. Þetta er samt eini leikmaðurinn sem við megum alls ekki missa.“

Þorleifur Ólafsson
Þorleifur Ólafsson mbl.is/Óttar Geirsson

Þrátt fyrir tap var Þorleifur sammála ofanrituðum að um skemmtilegan leik hafi verið að ræða í kvöld.

„Þetta er í fimmta skiptið sem við spilum við Njarðvík og þetta eru allt hörkuleikir. Ef fólk vill sjá alvöruleiki þá mætir það á þessa leiki,“ sagði Þorleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert