Tuttugu og þrír Kúrdar teknir af lífi í Írak

Vopnaðir menn stöðvuðu rútu fulla af kristnum mönnum og Kúrdum, sem eru yazidis-trúar, í norðurhluta Íraks í dag. Aðskildu þeir Kúrdana frá hinum kristnu og tóku síðan Kúrdana, sem voru 23, af lífi. Lögregla segir að svo virðist sem um hefndarmorð hafi verið að ræða vegna konu sem var grýtt í hel eftir að hún snérist frá yazidis til íslam. Iðkendur yazidis-trúar, sem flestir eru Kúrdar, trúa á engil sem margir kristnir menn og múslímar í Miðausturlöndum álíta holdgervingu djöfulsins.

Rútan var að flytja verkafólk frá vefnaðarvöruverksmiðju í Mosul til heimabæjar þeirra Bashika, sem að mestu er byggður kristnum mönnum og yazidum. Eftir að tilræðismennirnir stöðvuðu rútuna kröfðu þeir farþegana um persónuskilríki og sendu múslíma og kristna menn út úr rútunni. Þeir óku síðan með yazidana aftur til Mosul, þar sem þeim var stillt upp við vegg og þeir skotnir til bana.

Hundruð yazida mótmæltu aftökunum á götum úti í Bashika í dag og lokuðu múslímar í bænum sig inni á heimilum sínum af ótta við hefndaraðgerðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert