Íransforseti sakaður um ósiðsemi á almannafæri

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti.
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er sakaður um ósiðsemi á almannafæri eftir að hann faðmaði aldraða konu og kyssti á hönd hennar í opinberri móttöku, sem haldin var í tilefni af degi kennara í Teheran í gær.

Íranskir ríkisfjölmiðlar tóku myndir af forsetanum við þessa iðju en konan er fyrrverandi kennari. Blaðið Hezbollah , sem er málgagn þeirra Íransklerka sem hvað íhaldssamastir eru, segir á forsíðu í dag að engin dæmi séu um slíka framkomu frá því klerkastjórnin tók við völdum árið 1979.

Blaðið segir að hegðun forsetans geti haft alvarlegar afleiðingar og megi líkja henni við guðlast.

Konan, sem forsetinn faðmaði, var með þykka hanska og klædd síðum svörtum kufli og því snerti Ahmadinejad ekki bert hörund hennar. Blíðuhót forsetans hafa samt vakið athygli í Íran en samkvæmt svonefndum sharia-lögum mega maður og kona, sem ekki eru tengd, snerta hvort annað á almannafæri.

Þótt litið sé á Ahmadinejad sem fulltrúa íhaldsafla í Íran hafa hann og ríkisstjórn hans áður sætt ámæli af hálfu enn íhaldssamari afla í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert