Pútín gagnrýnir Eystrasaltslöndin harðlega

Angela Merkel, Vladímír Pútín og José Manuel Barroso í sumarleyfisbænum …
Angela Merkel, Vladímír Pútín og José Manuel Barroso í sumarleyfisbænum Volszhskí Utjos í suðurhluta Rússlands í dag. Reuters

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, gagnrýndi Eistland og Lettland harðlega í dag fyrir óviðunandi mannréttindabrot á rússneskumælandi íbúum í löndunum tveimur. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lýsti á móti áhyggjum af því, að ferðir rússneskra andófsmanna, sem vildu taka þátt í mótmælaaðgerðum í tengslum við leiðtogafund Rússlands og Evrópusambandsins, hefðu verið takmarkaðar.

Pútín setti gagnrýni sína fram á blaðamannafundi með Angelu Merkel, sem fer með forsæti Evrópusambandsins og José Manuel Barroso, framkvæmdastjóra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við upphaf leiðtogafundar Evrópusambandsins og Rússlands í suðurhluta Rússlands.

Pútín gagnrýndi eistnesk stjórnvöld síðan fyrir að fjarlægja sovéskt stríðsminnismerki úr miðborg Tallinn nýlega en sú aðgerð leiddi til óeirða í borginni. Sagði Pútín, að beitt hefði verið allt of harkalegum aðgerðum til að bæla niður óeirðirnar.

„Þeir dreifðu ekki aðeins mannfjöldanum. Þeir drápu einn mótmælandann;" sagði hann og virtist vera að vísa til lögreglunnar í Eistlandi. „Við krefjumst þess að glæpamennirnir verði látnir svara til saka.

Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháaen, gengu í Evrópusambandið árið 2004. Stór hluti íbúa í löndunum þremur er af rússnesku bergi brotinn og rússnesk stjórnvöld fullyrða að þetta fólk sæti ofsóknum.

Merkel lýsti því síðan yfir, að hún hefði áhyggjur af því að fólk hefði átt í erfiðleikum með að ferðast til bæjarins Volszhskí Utjos, þar sem leiðtogafundurinn er haldinn. „Ég vona að þeir fái tækifæri til að lýsa skoðunum sínum," sagði Merkel.

Fram kom í morgun að rússneskir lögreglumenn komu í veg fyrir að andstæðingar þarlendra stjórnvalda, þ.á m. Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, héldu til fundarstaðarins í suðurhluta Rússlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert