Nútímabörn fá pillur í stað umhyggju

Danskir foreldrar gefa börnum sínum mun meira af lyfjum nú en fyrir fimm árum og hafa barnalæknar áhyggjur af því að foreldrar noti verkjastillandi og róandi lyf sem undankomuleið frá því að sinna þörfum barna sinna í hraða og kröfum nútímaþjóðfélagsins. Þannig gefa nú æ fleiri foreldrar börnum sínum lyf til að geta farið með þau hálflasin í dagvistum fremur en að taka sjúkradag til að vera heima með þeim. Þetta kemur framá f fréttavef Jyllands-Posten.

Sala á verkastillandi lyfjum fyrir börn hefur aukist um þriðjung í Danmörku á undanförnum fimm árum og segir barnalæknirinn Vibeke Manniche það uggvænlega þróun. „Það verður til hætta á lyfjaeitrunum þegar aðgangur að paracetamoli er þetta auðveldur og auk þess hef ég áhyggjur af því að foreldrar gefi börnum sínum pillu í staðin fyrir þá umhyggju sem veikt barn hefur þörf fyrir,” segir hún. „Þegar við vorum börn og urðum lasin fengum við hlýja hönd móður okkar á ennið, sérstaka umhyggju og aukabolla afheitu kakói. Í dag segja foreldrarnir: Taktu pillu vinur. Við höfum ekki tíma til að vera heima út af vinnunni.”

Samkvæmt könnun sem lyfjafyrirtækið GlaxySmithKline hefur gert meðal 13 danskra yfirlækna hafa veikindi ekki aukist meðal danskra barna. Danskir læknar hafa það hins vegar á tilfinningunni að viðhorf foreldra til lyfja hafi breyst og að þeim þyki jafnvel í lagi að gefa börnum sínum lyf þegar þau eru óróleg eða hafa borðað lítið.

„Í nútímasamfélaginu hafa foreldrar þörf fyrir skyndilausnir til að fá hlutina til að ganga upp,” segir barnalæknirinn Henrik Schrøder og bætir því við að svo virðist sem foreldrar eigi erfiðara með að höndla veikindi barna sinna en áður og því reyni þeir oft að slá á einkenni sjúkdóma sem hvorki eru hættulegir né sérlega óþægilegir. „Foreldrar vilja losa börn sín við óþægindi en það er ekki rétt að venja sig á þá hugsun að öll óþægindi beri nauðsynlega að fjarlægja á stundinni. Barnasjúkdómar eru eðlilegur þáttur lífsins og þeir eru sjáldan hættulegir. Foreldrar eiga því heldur að sýna börnum sínum umhyggju og gefa þeim tíma á meðan þeir ganga yfir, til dæmis með því að lesa upphátt fyrir þau," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert