Foreldra ungabarna leitað í Kína

Börn á fæðingardeild
Börn á fæðingardeild AP

Kínverska lögreglan leitaði í dag til almennings um hvort einhver geti gefið upplýsingar um fimm nýfædd börn sem fundust í aftursæti stolinnar bifreiðar sl. sunnudag. Börnin, þrír drengir og tvær stúlkur, eru öll um tíu daga gömul.

Lögregla stöðvaði bifreiðina í Hebei-héraði á sunnudag en henni hafði verið stolið í Shanghæ, 1.100 km frá þeim stað þar sem hún var stöðvuð, fyrir tveimur vikum. Ekki hefur tekist að hafa upp á foreldrum barnanna. Kínversk dagblöð birtu í dag myndir af börnunum fimm þar sem þau liggja í röð á rúmi með númer fyrir ofan sig. Eru lesendur beðnir um að hafa samband við lögreglu ef einhver kannast við börnin eða getur veitt upplýsingar um hverra manna þau eru.

Þegar lögregla stöðvaði bifreiðina sem börnin fundust í þá stungu bílstjórinn og farþegi bifreiðarinnar af og ekki hefur tekist að hafa hendur í hári þeirra. Ekki er óalgengt að börnum sé rænt í Kína eða þau keypt af sárafátækum fjölskyldum og síðan seld til fólks sem vill eignast barn, þjónustufólk eða jafnvel brúði fyrir syni í framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert