Bandaríkin lýsa yfir stuðningi við Abbas

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, njóti fullkomins stuðnings Bandaríkjastjórnar. Í kvöld leysti Abbas samsteypustjórnina í Palestínu frá völdum og lýsti yfir neyðarástandi.

„Abbas forseti hefur nýtt sér það vald sem hann hefur lögum samkvæmt sem forseti palestínsku heimastjórnarinnar og leiðtogi palestínsku þjóðarinnar,“ sagði Rice við blaðamenn í dag.

„Og við styðjum þá ákvörðun hans fullkomlega sem lýtur að því að binda enda á neyðarástandið sem ríkir hjá íbúum Palestínu og gefa þeim það tækifæri að koma aftur á friði og von um bjarta framtíð.“ Rice lét ummælin falla eftir að Abbas leysti stjórnina frá völdum, sem var undir forsæti Hamas-samtakanna, en hörð átök hafa geisað milli Fatah og Hamas á Gaza. Abbas hefur fordæmt átökin og segir að um stjórnarbyltingu hersins sé að ræða.

Í dag var stutt í það að borgarastyrjöld brytist út í Palestínu er bardagamenn Hamas náðu á sitt vald mikilvæg höfuðvígi öryggissveita Fatah-hreyfingarinnar á Gaza. Að minnsta kosti 108 manns hafa látið lífið í átökunum á undanförnum dögum.

Yfirlýsing Abbas batt enda á þriggja mánaða samstarf Hamas og Fatah í samsteypustjórn. Mikil átök hafa verið innan stjórnarinnar og hafa yfir 260 manns látið lífið í mannskæðum átökum, sem rekja má til valdabaráttunnar, frá því í desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert