Ætla að ljúka verkefni frá 1942

Glacier Girl á flugi.
Glacier Girl á flugi.

Til stendur að fljúga gamalli herflugvél af gerðinni Lockheed P-38F „Lightning" frá Bandaríkjunum til Englands síðar í þessum mánuði og ljúka þar með verkefni sem bandarískri flugsveit var falið árið 1942. Flugvélin var í hópi átta flugvéla, sem allar nauðlentu á Grænlandsjökli en vélin náðist úr ísnum þar árið 1992 og hefur nú verið gerð upp.

Flugvélin, sem nefnd er Glacier Girl eða Jöklastúlkan, var ásamt fimm öðrum Lockheed P-38F vélum og tveimur svonefndum fljúgandi virkjum, eða Boeing B-17E, á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands en um var að ræða fyrsta áfanga mikilla liðsflutninga. Vélarnar voru yfir Grænlandsjökli og stefnu á Ísland þar sem taka átti eldsneyti en þá versnaði veðrið mikið og vélarnar hrakti af leið. Á endanum urðu þær eldsneytislausar yfir jöklinum um 160 km vestur af Kulusuk og nauðlentu allar. Alls voru 25 manns um borð í vélunum en þeim var öllum bjargað. Vélarnar grófust niður í jökulinn en fundust á ofanverðri síðustu öld og Glacier Girl náðist af um 90 metra dýpi.

Flugvélinni var fyrst flogið eftir viðgerð árið 2002 og hefur verið sýnd á nokkrum flugsýningum síðan. Nú stendur til að fljúga henni yfir Atlantshafið á flugsýningu í Duxford. Áætlað er að vélin komi til Englands 29. júní.

Brad McManus, einn flugmannanna í leiðangrinum árið 1942, mun fylgja Jöklastúlkunni fyrsta spölinn frá New Jersey en ferðin þar hefst 22. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert