„Draugaskúta“ með tonn af kókaíni um borð fannst við Afríkustrendur

Maríjúana brennt í Senegal í síðustu viku.
Maríjúana brennt í Senegal í síðustu viku. Reuters

Yfirvöld í Afríkuríkinu Senegal fundu mannlausa skútu á reki úti fyrir hafnarborginni Mbour, og um borð voru 1,2 tonn af kókaíni í 50 pokum, 24 kíló í hverjum. Er þetta mesta magn kókaíns sem yfirvöld í Senegal hafa nokkru sinni haldlagt.

Söluverðmæti farmsins á götunni í Vestur-Evrópu er áætlað um eitt hundrað milljónir dollara, eða sem svarar rúmum sex milljörðum króna.

Frá þessu greinir BBC. Haft er eftir sérfræðingum að fátæk strandríki í Vestur-Afríku gegni sífellt stærra hlutverki viðkomustaða smyglara er flytji kókaín frá Suður-Ameríku til Evrópu. Í Ghana og Sierra Leone hefur mikið magn kókaíns einnig verið haldlagt undanfarið.

Talið er að skútuna hafi rekið að strönd Senegals. Um borð fundust flugfarseðlar frá Brasilíu til Guinea-Bissau, sem nú er talin vera stórmiðstöð fíkniefnasmygls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert