Maður lést er farsíminn hans sprakk

Maður lést er farsíminn hans sprakk.
Maður lést er farsíminn hans sprakk. mbl.is/Jim Smart

Maður lést er farsími sem hann bar í brjóstvasa sprakk skyndilega. Xiao Jinpeng starfaði við logsuðu í Yingpan járnblendistöð í Gansu-héraði í vesturhluta Kína. Að sögn embættismanna í héraðinu sprakk Motorola farsíminn hans án viðvörunar en Xiao lést síðar á sjúkrahúsi af þeim áverkum sem hann hlaut.

Sky fréttastofan skýrði frá því að sprengingin hafi brotið rifbein í brjósti Xiao og beinflísar hafi gengið inn í hjartað og orðið honum að aldurtila.

Samverkamenn hans sögðu að Xiao hafi dottið niður er farsíminn hans sprakk skyndilega að því er talið vegna mikils hita.

Talsmaður Motorola í Peking sagðist vita af slysinu en taldi mjög ólíklegt að símanum væri um að kenna, hann taldi að trúlegast hefði maðurinn notað ódýra eftirlíkingu af símanum eða rafhlöðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert