Eins árs hitabylgju lokið í Danmörku

Sérfræðingar segja eins árs hitabylgju nú vera lokið í Danmörku.
Sérfræðingar segja eins árs hitabylgju nú vera lokið í Danmörku. mbl.is/Brynjar Gauti

Síðustu tólf mánuðir hafa verið heitustu samfelldu mánuðirnir í Danmörku frá því á víkingaöld, samkvæmt upplýsingum Jens Hesselbjerg Christensen, upplýsingafulltrúa dönsku veðurstofunnar Danmarks Meteorologiske Institut, DMI. Nú er hitatímabilinu hins vegar lokið. Það þarf þó ekki að þýða það að Danir geti ekki átt von á fleiri hlýjum dögum það sem eftir er sumars. Þetta kemur framá fréttavef Jyllands-Posten.

„Síðasta árið hefur veðrið í Danmörku verið alveg sérstakt. Það hafa verið slegin 17 hitamet og auk þess hefur hitinn svo til alltaf verið töluvert yfir meðallagi,” segir Christensen. „Þetta má rekja til óeðlilega hás hitastigs vatnsins í Norður-Atlantshafinu en þar hefur vatnið verið sex gráðum heitara en það á að sér að vera. Nú er hitastig vatnsins hins vegar að lækka aftur og það þýðir það að þessari árslöngu hitabylgju er að ljúka. Þetta þýðir þó ekki að það geti ekki orðið heitt í sumar, heldur bara það að við getum ekki lengur gert ráð fyrir viðverandi hlýindum."

Mikið hefur rignt í Danmörku að undanförnu en í næstu viku er gert ráð fyrir að þar stytti heldur upp. Á sama tíma mun hitastig hins vegar lækka töluvert frá því sem verið hefur. “Það sem við sjáum í kortunum núna er ósköp venjulegt, fremur kuldalegt danskt sumarveður,” segir veðurfræðingurinn Henning Gisselø.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert