Ungar konur í Noregi verði verðlaunaðar fyrir að eignast barn

Kåre Willoch, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur lagt til að norska ríkið verðlauni konur undir þrítugu með veglegu verðlaunafé eignist þær barn. Willoch vill að styrkurinn verði um 254 þúsund norskar krónur eða rúmlega 2,6 milljón íslenskra króna.

Núna fá norskar konur á vinnumarkaði allt að 377.352 norskar krónur í fæðingarorlofgreiðslur en konur sem ekki eru í fastri vinnu fá 33.584 krónur greiddar einu sinni í fæðingastyrk. Í samtali við Verdens Gang í dag segir Willoch að fæðingastyrkur til foreldra sé innihaldslaus og sé engin hagnaður fyrir foreldra,„Þeir sem eignast börn gera samfélaginu mikið gagn og því á ekki að refsa atvinnulausum fyrir að eignast börn". Hann segir fæðingarorlofsstefnuna í Noregi ýta undir fóstureyðingar og það gangi ekki upp að konur fari í fóstureyðingu af því þær hafi ekki efni á því að eignast barnið. Rannsóknir sýna að um helmingur norskra kvenna undir 25 ára aldri velja að fara í fóstureyðingu við þungun og mun fleiri kvenna í borgum velji þann kost.

Willoch hefur fengið ágætan stuðning við tillögur sínar og hefur ein helsta fræðikona Noregs í barneignum, Anne Eskild, lagt blessun sína yfir uppástunguna. Í samtali við Verdens Gang segir hún norska styrkjakerfið valda því að norskar konur eignist börn alltof seint. Það sé mun arðvænlegra fyrir ungar konur, sem eru til að mynda í námi, að bíða með barneignir þar til þær eru komnar langt yfir þrítugt. Verðlaunaféð geti líka leitt til meira jafnvægis á vinnumarkaði og konur sem eignist börn undir þrítugu sleppi við vandamálin sem skapast þegar þær sem eru yfir þrítugu og komnar langt á sínum starfsferli, eignast börn og kosti samfélagið þá mun meira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert