Breskir útgefendur sáu ekki í gegnum hrokafullan ritstuld

Ozias Humphry málaði þessa mynd sem talin er vera af …
Ozias Humphry málaði þessa mynd sem talin er vera af Jane Austen. Reuters

Skipuleggjandi Jane Austen hátíðarinnar í Bath í Suður-Englandi, David Lassman ákvað að athuga hvort Austen fengist útgefin í dag nærri 200 árum eftir að að fyrstu skáldsögur hennar slógu í gegn. Margir útgefendur á Bretlandseyjum sem fengu senda lítið breytta kafla sem teknir voru úr bókum Austen könnuðust ekki við textann.

Allir fyrir utan einn útgefenda sendu stöðluð bréf þar sem stóð að kaflarnir væru ekki taldir líklegir til að heilla breska lesendur.

Lassman breytti titlinum á einni af frægustu bókum í breskri bókmenntasögu úr Hroki og hleypidómar í First Impressions en hann lét hin frægu upphafsorð bókarinnar standa óbreytt.

En skáldsöguna skrifaði Austen fyrst á árunum 1796-1797 undir heitinu First Impressions. Upphafsorð skáldsögunnar eru meðal þekktustu setninga enskra bókmennta: ,,It is a truth universally acknowledged, that a single man in possession of a good fortune must be in want of a wife."

Penguin skrifaði Lassman: „Þakka þér fyrir bréfið og kaflana úr bók þinni First Impressions. Hún virðist vera frumleg og áhugaverð lesning.”

Eini útgefandinn sem sá í gegnum ritstuldinn var Alex Bowler hjá Jonathan Cape: „Takk fyrir að senda okkur fyrstu kaflana í First Impressions, mín fyrstu viðbrögð við lesturinn voru vantrú og léttur pirringur með að sjálfsögðu nokkrum hlátri. Ég legg til að þú teygir þig í eintakið þitt af Hroka og hleypidómum sem ég tel að hljóti að dvelja skammt frá ritvélinni þinni og athugir síðan að upphafskaflarnir í bókinni þinni líkist ekki um of því verki.”

Bresku útgefendurnir hafa í dag keppst við að útskýra hvers vegna þeir áttuðu sig ekki á að þeir höfðu fengið senda kafla úr frægustu skáldsögum breskrar bókmenntasögu og sögðu flestir að þeir hefðu sent kurteist og staðlað svar þó að innanhúss hafi ritstuldur verið ræddur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert