Sjötug amma myrti tengdadóttur sína

Sjötug bresk amma getur átt von á því að eyða síðustu árum æviskeiði síns á bak við lás og slá eftir að hún var dæmd sek um að hafa framið sæmdarmorð, en hún myrti tengdadóttur sína. Bachan Athwal, sem á 16 barnabörn, er talin vera elsta konan sem hefur verið dæmd fyrir morð á Englandi. Sonur hennar var einnig fundinn sekur um morð.

Búist er við því að dómur verði kveðinn upp yfir þeim þann 19. september nk.

Mæðginin myrtu Surjit Kaur Athwal sem hvarf af yfirborði jarðar í desember árið 1998 þegar hún ákvað að hún vildi losna úr hjónabandi sínu, sem hafði verið fyrirfram ákveðið. Þessi ákvörðun kom illa við tengdamóður hennar sem taldi að þetta myndi kalla skömm yfir fjölskylduna.

Gamla konan er sögð hafa sagt við einn fjölskyldumeðlim að hún myndi fyrr dauð liggja en láta tengdadóttur sína komast upp með þetta.

Bachan Athwal beitti tengdadóttur sína blekkingum og fékk hana til þess að samþykkja að koma til Indlands, ásamt eiginmanni sínum, rútubílstjóranum Sukhdave Singh Athwal, í þeim tilgangi að vera viðstödd fjölskyldubrúðkaup. Þegar þangað var komið réðst gamla konan á tengdadótturina, greip hana hálstaki og kyrkti hana þar til hún lognaðist út af.

Viðvörunarbjöllur fóru að klingja þegar hin 27 ára gamla Surjit Kaur Athwal sneri ekki aftur heim til sín í Hayes í Vestur-London eftir ferðalagið. Lík hennar hefur aldrei fundist, en talið er að það sé einhversstaðar í Punjab-héraðinu í Indlandi.

Þetta er annað dómsmálið í þessum mánuði sem varðar sæmdarmorð í landinu. Í síðustu viku var íraski kúrdinn Mahmod Mahmod dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt dóttur sína þegar hann komst að því að hún ætti í framhjáhaldi.

Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert