Öryggisráð SÞ samþykkir að senda friðargæslusveitir til Darfur

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að senda friðargæslulið til Darfur-héraðsins í Súdan. Um 26.000 friðargæsluliðar munu taka þátt í sameiginlegu verkefni SÞ og Afríkusambandsins. Þetta verður fjölmennasta friðargæslulið í heimi.

Öryggisráðið samþykkti ályktunina einróma eftir að Kínverjar lýstu yfir mikilvægum stuðningi við verkefnið, en það tókst eftir samningaviðræður.

Að minnsta kosti 200.000 manns eru sögð hafa látist í Darfur. Þá hafa um tvær milljónir manna þurft að flýja heimili sín vegna átakanna sem hófust árið 2003.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, segir verkefnið vera sögulegt og að það eigi sér engin fordæmi.

Emyr Jones Parry, sendiherra Breta hjá SÞ, sem vann að gerð ályktunarinnar, sagði að það myndi ekki bjarga lífum í Darfur að greiða einvörðungu atkvæði með því að senda friðargæslusveitir til héraðsins.

„Aðgerðir dagsins í dag vekja hinsvegar upp vonir um nýja byrjun fyrir Darfur,“ sagði hann við öryggisráðið eftir að atkvæðagreiðslunni var lokið.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

Alls verða 26.000 friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna sendir til Darfur. Þetta …
Alls verða 26.000 friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna sendir til Darfur. Þetta verður fjölmennasta friðargæslulið heims. AP
Hingað til hafa einungis friðargæsluliðar á vegum Afríkusambandsins verið staðsettir …
Hingað til hafa einungis friðargæsluliðar á vegum Afríkusambandsins verið staðsettir í Darfur. Þeim hefur hinsvegar gengið afar illa að binda enda á óöldina sem þar ríkir. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert