Bush ætlar að heimsækja Minneapolis

Yfir 60 manns slösuðust þegar brúin gaf sig.
Yfir 60 manns slösuðust þegar brúin gaf sig. AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti hyggst heimsækja Minneapolis og skoða aðstæður þar sem brú hrundi yfir ána Mississippi í gærkvöldi. Frá þessu greindu talsmenn Hvíta hússins í dag.

Kafarar hafa í dag leitað að fólki sem féll í ána þar sem brúin hrundi. Að sögn yfirvalda er búist við því að björgunaraðgerðir muni taka langan tíma þar sem aðstæður séu mjög erfiðar og hættulegar. Þetta er versta brúarslys í Bandaríkjunum í 20 ár.

Kafararnir á vettvangi sjá mjög takmarkað þar sem þeir leita í og við brúarrústirnar. Þeir hafa þó fundið nokkur af þeim ökutækjum sem féllu ofan í ána þegar brúin, sem er 40 ára gömul, gaf sig á háannatíma í gærkvöldi.

Slökkviliðsstjórinn Jim Clack segir að það séu yfir 10 ökutæki í ánni. Hann gaf þó ekki upp hvort fólk væri fast í bifreiðunum eður ei.

Staðfest er að fjórir hafi látist en fastlega er búist við að tala látinna muni hækka. Ekki er vitað hvers vegna brúarhlutinn, sem var 150 metrar á lengd, gaf sig.

Þingmaður demókrata í Minnesota, Amy Klobuchar, sagði í dag að: „Brú í Bandaríkjunum á ekki ekki bara að hrynja með þessum hætti.“

Yfir 50 ökutæki fóru í ána eða féllu á brúarrústirnar á hraðbraut 35W þegar brúin liðaðist í sundur öllum að óvörum. Yfir 60 manns slösuðust. Margir hlutu beinbrot auk áverka á höfði og mænu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert