Bush og Sarkozy snæða saman „óformlegan hádegisverð“

George W. Bush Bandaríkjaforseti snæddi óformlegan hádegisverð með Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta, en Bush tekur á móti franska starfsbróður sínum á heimili sínu í Maine í dag.

Embættismenn hafa lagt á það áherslu að ekki sé um leiðtogafund að ræða heldur fremur sé þetta tækifæri fyrir Bush og Sarkozy, og eiginkonur þeirra, til að kynnast betur.

Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, var andsnúinn Íraksstríðinu og varð afstaða hans þess valdandi að það kólnaði heldur í samskiptum Bandaríkjanna og Frakklands.

Sarkozy hefur hinsvegar gert mönnum það ljóst að hann hyggst taka upp nánara samstarf við Bandaríkin.

Þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram að fundurinn sé aðeins óformlegur hádegisverður, hafa sumir fréttaskýrendur bent á að það hafi verið nær ómögulegt að Bush hefði boðið Chirac í slíka kunningjaheimsókn.

Chirac og Bush voru ekki einvörðungu ósammála um Íraksstríðið heldur deildu þeir einnig um loftlagsbreytingar og viðskipti.

Bandarískir embættismenn hafa bent á það að Frakkar og Bandaríkjamenn vinni nú þegar náið saman að mörgum málum t.d. að málum sem snúa að Íran, Líbanon og Súdan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert