Fá greiðslur fyrir að megra sig

Bæjarstjórinn í Varallo Sesia, sem er bær á Norður-Ítalíu, hefur tekið upp á nýbreytni í baráttunni við offituvandann. Séu gildvaxnir bæjarbúar reiðubúnir að grenna sig fá þeir greiðslur fyrir.

Bæjarbúar sem léttast um þrjú kíló eða meira á einum mánuði eiga rétt á því að fá greiddar 50 evrur. Það er hinsvegar tekið fram að læknir verði að staðfesta að viðkomandi einstaklingur sé of feitur fyrir, og því gjaldgengur til þess að taka þátt í átakinu.

Ef viðkomandi einstaklingar ná að halda þyngdinni niðri í fimm mánuði til viðbótar fá þeir greiddar 100 evrur.

Gianluca Buonanno, bæjarstjóri Varallo Sesia, segir að hann hafi fengið þessa hugmynd þegar sonur hans sagði að hann væri með stóra bumbu. „Megrun þarf mikillar hvatningar við, og ég er að reyna skapa samstöðu um þetta hér,“ sagði Buonanno í samtali við breska dagblaðið Guardian.

Sjálfur segist bæjarstjórinn vilja losa sig við sex kíló en hann ætlar hinsvegar ekki að þiggja neina greiðslu fyrir.

Alls búa 7.400 manns í bænum og var átakið tilkynnt bæjarbúum sl. föstudag. Buonanno sagði að fjöldi manns hefði skráð sig um helgina.

Heilbrigðisráðherra Ítalíu, Livia Turco, segir að íbúar Varallo Sesia séu að setja gott fordæmi með þessu, og að aðrir bæir ættu að fylgja í kjölfarið. Að sögn heilbrigðisráðuneytisins eru 28 milljónir Ítala of feitir, sem er næstum því hálf þjóðin. Fimm milljónir Ítala eru sagðir eiga við offituvandamál að stríða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert