Áhrifamenn í S-Afríku dæmdir í skilorðsbundið fangelsi

Fimm áhrifamenn á tímum aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku, voru í morgun fundnir sekir um að hafa lagt á ráðin um að myrða Frank Chikane, aðstoðarmann forsetans, Thabo Mbeki. Adriaan Vlok, fyrrum dómsmálaráðherra landsins, og Johan van der Merwe, fyrrum lögreglustjóri, voru hvor um sig dæmdir til tíu ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar en þrír undirmenn þeirra voru dæmdir til fimm ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Mennirnir hafa allir játað að hafa lagt á ráðinu um að myrða Chikane árið 1989 með því að setja eitur í undirfatnað hans. Chikane, sem er prestur og skrifstofustjóri hjá skrifstofu forseta Suður-Afríku, hafði áður lýst því yfir að hann óskaði ekki eftir því að mennirnir yrðu dæmdir til fangelsisvistar en á síðasta ári bað Vlok hann afsökunar með því að þvo fætur hans.

Tveir hópar mótmælenda höfðu þó safnast saman við dómshúsið í Pretoria í dag. Krafðist annar réttlætis fyrir hönd fórnarlamba aðskilnaðarstefnunnar en hinn þess að meðlimir Afríska þjóðarráðsins verði einnig dregnir fyrir rétt vegna þeirra glæpa sem þeir frömdu á tímum aðskilnaðarstefnunnar.

Adriaan Vlok, fyrrum dómsmálaráðherra Suður-Afríku, og Johann van der Merwe, …
Adriaan Vlok, fyrrum dómsmálaráðherra Suður-Afríku, og Johann van der Merwe, fyrrum lögreglustjóri, við dómsuppkvaðninguna í Pretoria í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert