Talsmaður Bush ætlar að hætta út af lágum launum

Tony Snow aðaltalsmaður forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, ætlar að hætta í Hvíta húsinu áður en Bush fer frá völdum. Ástæðan er einföld segir Snow, hann þurfi hærri laun til þess að framfleyta fjölskyldu sinni. „Ég ætla að vera eins lengi og ég get," sagði Snow í kvöld við starfsfélaga í Hvíta húsinu án þess að tilgreina hvenær hann muni hætta. Forsetatíð Bush lýkur þann 20. janúar 2009.

Snow, sem er 52. ára þriggja barna faðir, er með 168 þúsund dali í árslaun, 11,7 milljónir króna, sem talsmaður forseta. Hann var hins vegar með mun betri laun er hann starfaði sem þáttastjórnandi hjá Fox sjónvarpsstöðinni. Snow tók við starfi talsmanns Hvíta hússins þann 26. apríl 2006.

Á mánudag greindi Karl Rove, helsti pólitíski ráðgjafi Bush, frá því að hann ætlaði að segja af sér embætti aðstoðarstarfsmannastjóra Hvíta hússins í lok ágúst. Rove lagði línurnar fyrir kosningabaráttu Bush fyrir forsetakosningarnar árin 2000 og 2004. Rove hefur verið umdeildur í Washington og tengst ýmsum málum, sem hafa gert Bandaríkjastjórn erfitt fyrir, nú síðast brottrekstri átta alríkissaksóknara, sem þingnefndir eru að rannsaka.

„Mér finnst þetta bara vera tímabært," segir Rove í viðtali við Wall Street Journal á mánudag. „Það er alltaf nóg að fást við hér en ég verð að gera þetta vegna fjölskyldu minnar."

Tony Snow ásamt George W. Bush
Tony Snow ásamt George W. Bush Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert