Bush sagður ætla óska eftir 50 milljarða dala aukafjárveitingu vegna Íraksstríðsins

George W. Bush Bandaríkjaforseti.
George W. Bush Bandaríkjaforseti. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti er sagður ætla biðja Bandaríkjaþing um 50 milljarða dala aukafjárveitingu vegna stríðsins í Írak. Frá þessu greindi bandaríska dagblaðið The Washington Post í dag, sem hefur þessar upplýsingar frá embættismanni í Hvíta húsinu.

Talið er að þetta sé merki um það að Hvíta húsið sé öruggt um að geta staðist þann þrýsting sem komi frá Bandaríkjaþingi um að Bandaríkin byrji að kalla herlið sitt frá Írak.

Aukafjárveitingin myndi bætast við þá 460 milljarða dala sem þegar hefur verið úthlutað til varnarmála samkvæmt fjárlögum næsta árs. Þá er einnig verið að bíða eftir að viðbótarframlag upp á 147 milljarða dala verði samþykkt í þinginu, en féð á að nýta í Afganistan og Írak, að því er dagblaðið segir.

Búist er við því að Bandaríkjastjórn muni tilkynna þetta í næsta mánuði eftir að þeir David Petraeus, sem er æðsti yfirmaður Bandaríkjahers í Írak, og Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, muni birta skýrslu um ástandið í Írak.

Aðspurður segir talsmaður Hvíta hússins, Scott Stanzel, að engin ákvörðun hafi verið tekin varðandi óskir um frekari fjárveitingar.

Stríðsrekstur kostar skildinginn.
Stríðsrekstur kostar skildinginn. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert