Karlmaður ákærður fyrir að skipuleggja árásir á sendiráð í Ósló

Frá Ósló.
Frá Ósló. AP

Þrítugur Norðmaður af pakistönsku bergi brotnu var í dag ákærður fyrir að skipuleggja árásir á bandarísk og ísraelsk sendiráð í Ósló og fyrir að hafa staðið á bak við skotárás í bænahúsi í borginni.

Fram kemur í norskum fjölmiðlum að maðurinn heiti Arfan Bhatti. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar varðandi sendiráðsárásirnar sem hann er sagður hafa skipulagt.

Lögmaður Bhattis sagði í samtali við norsku fréttastofuna NTB að ákæran hafi verið gefin út í kjölfar samtals sem hann átti við annan mann í bifreið sinni, en lögreglan hleraði símtalið. Þar á Bhatti að hafa sagt að hann vildi sprengja bandaríska sendiráðið.

Lögmaður Bhattis vísaði öllu slíku á bug og sagði jafnframt að það væri rangt að ákæra skjólstæðing sinn fyrir skotárásina í bænahúsinu. Engin sönnunargögn séu fyrir hendi sem geti tengt Bhatti við árásina.

Um 10 skotum var hleypt af í bænahúsinu þann 17. september í fyrra. Engan sakaði í árásinni en árásarmaðurinn komst undan á hlaupum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert