Sænskum listamanni hótað lífláti vegna Múhameðsmynda

Múslímakona, sem búsett er í Svíþjóð, hefur viðurkennt að hafa hótað sænska listmanninum Lars Vilks lífláti eftir að myndir voru birtar eftir hann í sænskum fjölmiðlum þar sem Múhameð spámaður er sýndur í líki hunds. Konan mun hafa haft samband við Vilks í síma og tölvupósti og hótað honum öllu illu.

„Hún hótaði honum lífláti. Hún sagði ekki að hún myndi drepa hann sjálf en að hún væri að vinna í því að fá trúbræður sína til að gera það,” segir Hakan Lund, talsmaður lögreglunnar í Helsingborg.

Lund segir konuna vera frá lýðveldum fyrrum Júgóslavíu og hafa búið í Svíþjóð í mörg ár. Þá segir hann ekkert benda til þess að hún tilheyri samtökum herskárra múslíma. „Hún er móðguð og það lítur út fyrir að hún hafi einfaldlega ekki getað hamið sig,” segir hann.

Vilks greindi frá því í samtali við sænsku fréttastofuna TT að konan hefði sagt að honum yrði „slátrað" og að hún ætti bræður í al Qaeda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert