Depardieu bíða réttarhöld

Depardieu hefur verið sakaður um glæpsamlegt athæfi.
Depardieu hefur verið sakaður um glæpsamlegt athæfi. AFP/Thierry Roge

Franska leikarans Gerard Depardieu bíður réttarhöld í október vegna ásakana tveggja kvenna um að Depardieu hafa áreitt þær kynferðislega. Þetta hefur franskur saksóknari staðfest. 

Er fyrrverandi kyntáknið sakað um að hafa brotið á sér við tökur á kvikmyndum árið 2021 og árið 2014.

Báðar konurnar voru á setti kvikmyndarinnar Green Shutter sem tekin var upp árið 2021 og þó meint brot annarrar konunnar hafi verið frá árinu 2014 stigu þær samtímis fram.

Depardieu er orðinn 75 ára gamall og hefur ekkert leikið síðan ásakanirnar voru bornar á hann.

Í síðara tilvikinu er Depardieu sakaður um að hafa káfað á konunni þegar hún yfirgaf hótel sem þau voru bæði stödd á. Er hann sagður hafa haldið konunni og sagt við hana óviðeigandi orð áður en lífvörður steig inn í aðstæðurnar. Saga konunnar í fyrra tilvikinu er af svipuðum toga.

Depardieu á einnig yfir höfði sér ákæru eftir að leikkonan Charlotte Arnaould sakaði hann um nauðgun árið 2018. Var hún 22 ára þegar meint brot átti sér stað. 

Samhliða hafa konur stigið fram og sakað hann um að haga sér óviðurkvæmilega gagnvart þeim í gegnum tíðina og í minnst einu tilviki er Depardieu sakaður um nauðgun. 

Málin hafa klofið franska kvikmyndaheiminn. Annars vegar þeir sem hafa sagt Depardieu saklausan uns sekt er sönnuð. Í þeim hópi er meðal annars Emmanuel Macron, Frakklandsforseti.

Hins vegar eru þeir sem hafa sagt að trúa beri konunum skilyrðislaust og að kynferðisleg áreitni í garð ungra kvenna hafi verið vandamál í kvikmyndageiranum áratugum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert