Fjöldamorðingi óánægður með að hafa ekki sett met

Aleksander Pitjúsjkin í réttarsal í Moskvu í sumar.
Aleksander Pitjúsjkin í réttarsal í Moskvu í sumar. AP

Rússneskur fjöldamorðingi sagði í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð, að hann sjái mest eftir því að hafa ekki sett nýtt met í morðum. Maðurinn er ákærður fyrir að myrða 49 manneskjur en er sagður hafa játað á sig 61 morð. Hann er nefndur Taflborðsmorðinginn en hann mun hafa stefnt að því að myrða jafn marga og reitirnir á taflborðinu eru margir, eða 64.

„Hefðu þeir ekki náð mér hefði ég aldrei hætt. Það var mörgum mannslífum bjargað með því að handtaka mig," hefur fréttaritari danska blaðsins Jyllands-Posten í Rússlandi eftir Aleksander Pitjúsjkin en birt var viðtal við hann í rússneskri sjónvarpsstöð.

Pitjúsjkin framdi flest morðin í Bitsevskí lystigarðinum í suðurhluta Moskvu. Hann vann í stórverslun í nágrenni garðsins og flest fórnarlamba hans bjuggu í nágrenninu, aðallega konur og aldraðir karlmenn, sem hann hitti í garðinum og bauð vodka og drap síðan með höfuðhöggum.

Upp komst um Pitjúsjkin þegar kona, sem hann átti stefnumót við í garðinum í júní á síðasta ári, skildi farsímanúmer hans eftir hjá syni sínum.

Réttarhöld yfir Pitjúsjkin hófust í ágúst. Honum er lýst sem dýravini og kurteisum og vingjarnlegum manni. Það kom kunningjum hans því gersamlega í opna skjöldu þegar í ljós kom hvaða mann hann hafði að geyma.

Jyllands-Posten segir, að Pitjúsjkin hafi einnig sagt að hann hafi viljað slá morðamet Andrejs Tjíkatílos, sem á árunum 1978 til 1990 myrti 52 börn og unglinga í suðurhluta Rússlands. Hann var tekinn af lífi árið 1994.

Dauðarefsing er lögleg í Rússlandi en Rússar hafa ekki beitt henni lengi, m.a. vegna þrýstings frá Evrópuráðinu og Evrópusambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert