Eistar banna olíuleiðslu í Eystrasalti

Eistnesk stjórnvöld hafa ákveðið að veita ekki þýsk-rússneska félaginu Nord Stream, sem er að hluta í eigu rússneska ríkisfélagsins Gazprom, leyfi til að gera botnrannsóknir í lögsögu Eistlands í Eystrasalti með það fyrir augum að leggja þar gasleiðslu. Nord Stream segir að væntanlega verði leiðslan lögð í finnskri lögsögu eins og upphaflega var áformað.

Eistar hafa verið tvístígandi eftir að rússneskir embættismenn tilkynntu, að rússneski herinn gæti gætt öryggis á svæðinu á meðal leiðslan yrði lögð og einnig eftir að leiðslan yrði tekin í notkun.

Gazprom og þýsku fyrirtækin BSAF og E.ON stofnuðu Nord Stream og samþykktu árið 2005 að leggja 1200 km langa gasleiðslu á botni Eystrasalts til Evrópu og Rússlands. Upphaflega stóð til að leggja leiðsluna í lögsögu Rússlands, Finnlands, Svíþjóðar, Danmerkur og Þýskalands. Finnar sögðu hins vegar að finna þyrfti aðra leið vegna of mikilla umhverfisáhrifa og þá óskaði Nord Stream eftir að Eistlendingar veittu rannsóknarleyfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert