Sri Chinmoy látinn

Sri Chinmoy í móttöku í Höfða í Reykjavík árið 2000.
Sri Chinmoy í móttöku í Höfða í Reykjavík árið 2000. mbl.is/Ásdís

Indverski heimspekingurinn Sri Chinmoy Kumar Ghose lést í gær í New York, 76 ára að aldri, að því er kemur fram í bandarískum fjölmiðlum. Chinmoy var m.a. tilnefndur af 51 íslenskum alþingismanni til friðarverðlauna Nóbels, sem Al Gore og loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hlutu í morgun.

Þingmennirnir sem tilnefndu Chinmoy sögðu, að trú hans á einingu og samkennd milli landa og einstaklinganna, sem þau byggi, hefði kristallast í þrotlausu starfi hans fyrir Sameinuðu þjóðirnar í 30 ár.

Fram kemur í blaðinu New York Daily News, að Chimnoy kom til Bandaríkjanna árið 1964, fékk starf hjá indverska sendiráðinu og hóf að flytja fyrirlestra. Með árunum vakti hann athygli fyrir margvíslega hæfileika en hann er sagður hafa samið yfir 20.000 lög og haldið yfir 750 tónleika. Þá hefur hann gefið út hátt í 1600 bækur með nærri 113 þúsund ljóðum og viskuorðum. Einnig hefur hann gert yfir 200.000 málverk og teikningar.

Chinmoy var einnig kunnur fyrir aflraunir, sem hann sagðist stunda til að sýna fram á ótakmarkaða getu mannsandans.

Hér á landi hefur alþjóðlegt friðarhlaup, sem Chinmoy beitti sér fyrir, verið hlaupið árlega frá árinu 1987. Hann kom m.a. til Íslands árið 2000 og hélt tónleika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert