Forseti og forsætisráðherra berjast um völdin í Sómalíu

Hermenn stjórnarhersins í Sómalíu.
Hermenn stjórnarhersins í Sómalíu. Reuters

Fjórir óbreyttir borgarar létu lífið í átökum í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, síðastliðna nótt en 34 slösuðust í átökum hers bráðabrigðastjórnarinnar og herskárra íslamista í borginni í gær.

Átök stjórnarhersins, sem nýtur stuðnings eþíópískra hersveita, og íslamista hafa harðnað mjög að undanförnu eftir nokkra fremur friðsamlega mánuði í kjölfar harðra átaka fyrrihluta þessa árs.

Fundur stendur nú yfir um framtíð bráðabrigðstjórnarinnar í borginni Baidoa, þar sem bráðabrigðastjórnin hefur aðsetur, en Abdullahi Yusuf, forseti landsins hefur krafist þess að ríkisstjórnin reki forsætisráðherrann Ali Mohammed Ghedi.

Yusuf heldur því fram að umboð Ghedis til að leiða bráðabrigðastjórnina sé útrunnið en Ghedi neitar því. Fréttaskýrendur segja hins vegar að rekja megi deilur þeirra til stuðnings þeirra við ólíka aðila sem sækjast eftir því að fá olíuvinnslusamninga í landinu. Mennirnir hafa barist um stuðning fulltrúa bráðabrigðastjórnarinnar að undanförnu og hefur Ahmedou Ould Abdallah, sérstakur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í Sómalíu varað við því að deilur þeirra geti hugsanlega leitt til þess að tvær sjálfskipaðar ríkisstjórnir berjist um völdin í landinu auk íslamista.

Er bráðabrigðastjórnin tók við völum í landinu um síðustu áramót hafði ekki verið formleg ríkisstjórn við völd í landinu frá árinu 1991 er einræðisherranum Mohamed Siad Barre var steypt af stóli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert