Íbúar Ósló óttaslegnir vegna sníkjudýrs - þrír hafa smitast

Giardia sníkjudýrið.
Giardia sníkjudýrið. AP

Bráðamóttökur sjúkrahúsa í Ósló bárust um 250 símtöl frá áhyggjufullum borgarbúum í gær eftir að yfirvöld höfðu ráðlagt þeim að sjóða kranavatnið vegna Giardia-sníkjudýrsins sem hefur fundist í vatninu. Þrír hafa smitast.

„Það varð algjör sprenging í símtölum til okkar yfir daginn, sérstaklega eftir að fólk fór að koma heim úr vinnunni,“ sagði Anne Kathrine Nore, sem starfar á bráðamóttöku í Ósló, í samtali við norsku fréttstofuna NTB.

Nore segir að viðbrögð fólks hafi ekki komið henni á óvart. Sérstaklega í ljósi þess hve fjölmiðlar hafa sýnt málinu mikinn áhuga. Hún segir að flestir þeirra sem hafi sett sig í samband við sjúkrahúsin hafi aðeins verið að leita upplýsinga í tengslum við málið. Aðrir voru hvattir til þess að hafa samband við heimilislækni sinn.

Í gærkvöldi lágu sjö sjúklingar á bráðamóttökunni vegna meltingarvandræða sem tengjast sýkingunni. Nore segir að það sé yfir meðallagi.

Í dag fékkst það staðfest að fjölskylda í Ósló, faðir og tveir synir hans, hafa smitast af Giardia sníkjudýrinu. Ekki liggur fyrir hvar þeir veiktust.

„Það er mjög óvenjulegt að sníkjudýr finnist í þremur í sömu fjölskyldunni,“ sagði læknirinn Dag Berild, hjá Aker-háskólasjúkrahúsinu í samtali við Aftenposten.

Smithætta er sögð vera lítil og að hún sé bundin við Storo-hverfið í Ósló.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert