Tillaga um blátt kort ESB lögð fram í dag

Fánar nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins.
Fánar nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins. AP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun í dag leggja fram formlega tillögu að því að koma á svokölluðu bláu korti í aðildarlöndunum en tillagan miðar að því að laða innflytjendur með sérfræðiþekkingu að sambandslöndunum. Bláa kortinu er ætlað að verða sambærilegt við græna kortið í Bandaríkjunum og gera handhöfum þess og fjölskyldum þeirra kleift að búa og starfa löglega í aðildarlöndunum Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjórnarinnar mun vanta 20 milljónir sérfræðinga á vinnumarkað í Evrópusambandslöndunum næstu 20 árin en mest er eftirspurnin eftir tækni- og tölvumenntuðu fólki.

Sérfræðingar segja tillögur framkvæmdastjórnarinnar miða að því að mæta þessari þörf en að henni sé einnig ætlað að stemma stigu við því að allir hæfileikaríkustu innflytjendurnir flytji til Bandaríkjanna.

Tillögurnar hafa þegar verið gagnrýndar og forsvarsmenn Evrópusambandsins sakaðir um að vilja velja úr hæfileikaríkustu einstaklinga þriðja heimsins og útiloka aðra og hefur verið varað við því að slíkt muni einungis auka bilið á milli þróunarríkjanna og þróaðra ríkja. Þá hefur tillagan einnig verið gagnrýnd fyrir að veita innflytjendum of greiðan aðgang að evrópskum vinnumarkaði.

Samkvæmt sáttmálum Evrópusambandsins hafa yfirvöld í Bretlandi, Danmörku og Írlandi val um það hvort kortið verði tekið upp í löndunum en öðrum aðildarríkjum sambandsins verður skylt að taka þau upp verði tillagan samþykkt. Til þess þurfa hins vegar yfirvöld í öllum aðildarríkjum sambandsins að samþykkja tillöguna en yfirvöld í Austurríki, Hollandi og Þýskalandi hafa þegar lýst efasemdum um hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert