Yfirvöld í Prag vilja banna göngu nýnasista

Borgarstjórnin í Prag hyggst leita allra löglegra leiða til að banna fyrirhugaða göngu hægri öfgamanna í gegnum hverfi gyðinga í borginni. Borgaryfirvöld höfðu bannað gönguna, en héraðsdómur í borginni hnekkti banninu á föstudaginn. Borgaryfirvöld tilkynntu í dag að enn á ný yrði reynt að banna gönguna.

Það eru samtöki ungra þjóðernisdemókrata sem skipulagt hafa gönguna, en þau samtök tengjast samtökum nýnasista. Gangan á að fara fram tíunda nóvember, en níunda nóvember 1938 var svokölluð Kristalsnótt, þegar nasistar réðust á bænahús, heimili og fyrirtæki gyðinga um gervallt Þýskaland og í Austurríki.

Gyðingar í Prag segja að þeir líti á fyrirhugaða göngu sem móðgun við minningu tékkneskra fórnarlamba Helfararinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert