Reykur og sót hafa slæm áhrif á heilsu í íbúa S-Kaliforníu

AP

Þótt tekist hafi að ráða niðurlögum margra þeirra elda sem geysað hafa í suðurhluta Kaliforníu í Bandaríkjunum þá valda þeir enn vandræðum. Um 23.000 heimili eru enn í hættu vegna fimm stórra elda sem loga í þremur sýslum en auk þess er andrúmsloft mjög mengað víða í fjöllum San Bernardino í Orange- og Riverside sýslum og í Sanbernardino dalnum.

Sjúklingum sem glíma við öndunarerfiðleika hefur fjölgað mikið við læknamiðstöð Kaliforníuháskóla í San Diego og er fólki sem á við hjarta- og öndunarfærasjúkdóma að etja ráðlagt að vera heima við. San Diego Charges eiga leik í NFL deildinni á morgun og hefur honum ekki verið aflýst. Ross Porter, talsmaður bandarísku lungnasamtakanna í Kaliforníu, segir að aðdáendur liðsins verði að fara varlega ef þeir ákveði að fara á leikinn. „Stundum er betra að sitja heima og horfa á leikinn á sjónvarpi.”

Í það minnsta þrír hafa látist í eldunum og hafa um 1.700 heimili eyðilagst. Tjón er talið nema meira en milljarði Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega sextíu milljarða íslenskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert