Fogh áformar ekki að breyta stjórnarforminu

Anders Fogh Rasmussen veifar til stuðningsmanna Venstre í gærkvöldi.
Anders Fogh Rasmussen veifar til stuðningsmanna Venstre í gærkvöldi. Reuters

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, gekk á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar í morgun og tilkynnti henni formlega um úrslit þingkosninganna í gær. Hann sagði á eftir við fréttamenn, að hann áformaði ekki að taka Danska þjóðarflokkinn með formlegum hætti inn í stjórnina en flokkurinn hefur stutt ríkisstjórn Venstre og Íhaldsflokksins undanfarin tvö kjörtímabil.

Samkvæmt upplýsingum frá dönsku hirðinni var Friðrik krónprins einnig viðstaddur fund Fogh og drottningar.

Fogh ætlar ekki að segja af sér embætti forsætisráðherra og fá endurnýjað umboð til stjórnarmyndunar og bendir á að flokkar, sem ráða meirihluta á danska þinginu eftir kosningarnar, hafi lýst yfir stuðningi við sig sem forsætisráðherra. Auk fyrrgreindra þriggja flokka hefur flokkurinn Ny Alliance einnig lýst stuðningi við Fogh.

Fogh segir, að hann muni bjóða bæði Danska þjóðarflokknum og Ny Alliance til viðræðna um pólitískan grundvöll ríkisstjórnarinnar. Þegar Fogh var spurður, hvort Ny Alliance muni ná að hafa áhrif á stefnu stjórnarinnar í innflytjendamálum vísaði hann til þess, að hann vildi ná breiðri samstöðu um mál á danska þinginu.

Ríkisstjórn Foghs hefur 90 þingsæti á bakvið sig af 179 á danska þinginu og ef þingmenn Ny Allience eru taldir með eru stjórnarsinnar 95.

Það vakti hins vegar talsverða eftirtekt í dag, að Naser Khader, formaður Ny Alliance, lagði til að Marianne Jelved, fyrrum formaður Det Radikale Venstre, verði forseti danska þingsins. Det Radikale Venstre er hluti af bandalagi flokkanna á vinstri væng en Khader var áður í þeim flokki áður en hann stofnaði nýja flokkinn fyrr á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert