Kasparov handtekinn í Moskvu

Lögregla handtekur Garrí Kasparov í Moskvu í dag.
Lögregla handtekur Garrí Kasparov í Moskvu í dag. AP

Garrí Kasparov, einn af leiðtogum rússnesku stjórnarandstöðunnar, var í dag handtekinn í Moskvu eftir mótmælaaðgerðir gegn rússneskum stjórnvöldum. Óeirðalögregla greip til aðgerða eftir að um 150 mótmælendur ruddust gegnum raðir lögreglu og reyndu að ganga að húsi rússnesku kjörstjórnarinnar.

Kasparov hafði áður ávarpað fundinn og sagði, að Rússar yrðu að vinna bug á óttanum, sem stjórnvöld notuðu til að halda í völdinn. „Stjórn Pútíns lítur á land okkar sem auðsuppsprettu," sagði Kasparov.

Lögregla hefur áður gripið til harðra aðgerða í tengslum við andófsgöngur, sem stjórnarandstöðusamtök hafa reynt að skipuleggja á undanförnum mánuðum. Hafa göngumenn og aðrir vegfarendur sætt barsmíðum og margir hafa verið handteknir.

Í þetta skipti fengu skipuleggjendurnir heimild borgaryfirvalda til að halda mótmælafund en bann var lagt við því, að gengið yrði yfir torgið að byggingunni þar sem yfirkjörstjórn landsins er með skrifstofur. Vildu þeir afhenda þar ályktun þar sem því er haldið fram, að þingkosningar, sem fara fram 2. desember, séu ekki frjálsar og óháðar.

Lögregla handtók á annan tug mótmælenda auk Kasparovs.

Öldruð kona reynir að koma í veg fyrir að lögreglumaður …
Öldruð kona reynir að koma í veg fyrir að lögreglumaður handtaki mótmælendur. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert