Fogh segir Mugabe glæpamann

Frá leiðtogafundi Evrópusambandsins og Afríkusambandsins í Lissabon í Portúgal í …
Frá leiðtogafundi Evrópusambandsins og Afríkusambandsins í Lissabon í Portúgal í morgun.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur lýsti því yfir lýsti því yfir við upphaf leiðtogafundar Evrópusambandsins og Afríkusambandsins í morgun að Robert Mugabe, forseti Zimbabve væri ekki einungis einræðisherra heldur einnig glæpamaður sem hafi lagt heimaland sitt í rúst. Þetta kemur fram á fréttavef Politiken.

 „Hlutirnir ganga sem betur fer betur í mörgum öðrum Afríkuríkjum í dag en það er alvarlegt vandamál að jafn alvarleg mannréttindabrot og eiga sér stað í Zimbabve skuli enn geta átt sér stað,” sagði Rasmussen við danska blaðamenn skömmu áður en fundurinn hófst. 

Hann sagði umræddan vanda þó ekki mega koma í veg fyrir umræður um önnur mikilvæg mál. „Það eru aðrir mikilvægir hlutir sem við verðum að ræða en við verðum þó að koma því á framfæri við Mugabe að framkoma hans sé algerlega óásættanleg. Það er algerlega fáránlegt að þessi glæpamaður skuli hafa lagt heimaland sitt í rúst. Evrópumönnum ber að segja með einni og ákveðinni rödd þannig að önnur Afríkuríki skilji að við tökum slíku mjög alvarlega," sagði hann. 

Mugabe og Rasmussen sitja nú leiðtogafund 27 Evrópusambandsríkja og 53 Afríkusambandsríkja í Lissabon í Portúgal. Þátttaka Mugabe, sem sætir ferðabanni til Evrópusambandslandanna, hefur sett mikinn svip á aðdraganda fundarins og tekur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, ekki þátt í fundinum í mótmælaskyni við þátttöku hans. 

Sjö ár eru frá síðasta sameiginlega leiðtogafundi sambandanna en árið 2003 var slíkum fundi aflýst vegna deilna um þátttöku Mugabe.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert