Fórnarlambi nauðgunar veitt sakaruppgjöf

Abdullah, konungur Sádi-Arabíu, hefur veitt 19 ára gamalli stúlku sakaruppgjöf en hún var í síðasta mánuði dæmd í sex mánaða fangelsi og  til að vera húðstrýkt í 200 skipti, en henni var nauðgað af hópi karlmanna. Þetta kemur fram í frétt  dagblaðsins Al Jazirah.  

Stúlkan hitti fyrrverandi unnusta sinn fyrir einu og hálfu ári í Qatif í Sádi-Arabíu og settist með honum inn í bíl. Hún hugðist biðja hann um að skila myndum sem hann átti af henni, enda var hún um það bil að giftast öðrum manni. Sjö menn komu þá að og rændu þeim og nauðguðu báðum og mun stúlkunni alls hafa verið nauðgað fjórtán sinnum.

Dómstóll í Qatif dæmdi nauðgarana sjö til fangelsisvistar, frá tíu mánuðum til fimm ára, og áttu allir að sæta húðstrýkingu, 80 til 1.000 höggum hver. Er sá dómur talinn hafa verið vægur, enda liggur dauðarefsing við nauðgun í Sádi-Arabíu.  

Var stúlkan dæmd fyrir að brjóta lög sem banna samskipti við ókunnuga karlmenn. Dómurinn yfir stúlkunni vakti mikla reiði víða um heim og var meðal annars fordæmdur af mannréttindasamtökum sem og stjórnvöldum í Bandaríkjunum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka