Rússar gera tilraun með langdræga eldflaug

Rússneski herinn gerði í dag vel heppnaða tilraun með nýja, langdræga skotflaug sem borið getur marga kjarnaodda. Er ætlunin að þessi flaug komi í stað úreltra vopna frá tímum Sovétríkjanna.

Talsmaður hersins sagði að flauginn hefði verið skotið á loft frá Norður-Rússlandi og hafi tilraunakjarnaoddarnir hitt fyrirhuguð skotmörk á Kamtsjaka-skaga, í um 7.000 km fjarlægð.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur notað miklar tekjur sem fengist hafa af olíuútflutningi til að endurnýja vopnabúr hersins á tímum aukinnar spennu í samskiptum Rússlands og Vesturlanda. Hafa rússnesk stjórnvöld harðlega gagnrýnt fyrirætlanir Bandaríkjamanna um að koma upp varnarflaugastöðvum í Póllandi og Tékklandi, og segja þær ógn við öryggi Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert