Starfsfólk France 24 mótmælir

Nicolas Sarkozy.
Nicolas Sarkozy. Reuters

Starfsfólk frönsku fréttasjónvarpsstöðvarinnar France 24, sem sett var á fót fyrir ári síðan, lýsti í dag vanþóknun sinni á þeim tilmælum Nicolas Sarkozy forseta að stöðin hætti útsendingum á arabísku og ensku. Lagði hann til að einungis yrði sent út á frönsku og efnið textað fyrir erlenda áhorfendur.

Stöðinni var ætlað að keppa við CNN International, BBC World og Al Jazeera, og var sú ákvörðun að senda út fréttir á ensku og arabísku talin til marks um að raunsæi hefði ráðið ferðinni, en frönsk stjórnvöld eru þekkt að því að vernda franska tungu og stuðla að útbreiðslu hennar.

Sarkozy sagði á fréttamannafundi í dag að þar sem franskir skattgreiðendur stæðu straum að kostnaði við stöðina væri sér illa við að „fjármagna stöð sem talar ekki frönsku.“

Hann lagði til að stöðin yrði sameinuð tveim öðrum sjónvarpsstöðvum, Radio France Internationale og TV5 í einu eignarhaldsfélagi.

Í tilkynningu frá stéttarfélagi starfsfólks stöðvarinnarvar „áætlunum Sarkozys um að skipta út France 24 fyrir stöð sem einungis sendir út á frönsku harðlega mótmælt,“ og sagðar skref aftur á bak.

Stéttarfélagið sagðist ekki andvígt sameiningu stöðvarinnar við aðrar stöðvar, en fráleitt væri að hætta alveg við upphaflegar fyrirætlanir um tilgang stöðvarinnar.

Fyrrverandi Frakklandsforseti, Jacques Chirac, var einn helsti hvatamaðurinn að stofnun France 24.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert