Bandaríkin gera kröfur til Þjóðverja

Þýskur hermaður við störf í Afganistan
Þýskur hermaður við störf í Afganistan AP

Staðhæft er í þýskum fjölmiðlum að bandarík yfirvöld hafi krafist þess að Þjóðverjar sendi liðsauka til Afganistans. Talsmaður þýska varnarmálaráðuneytisins vill ekki staðfesta þetta en segir Franz Josef Jung, varnarmálaráðherra Þýskalands þó hafa fengið bréf frá Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Samkvæmt fréttum dagblaðsins Sueddeutsche Zeitung er bréf Gates ein og hálf blaðsíða að lengd og bæði formlegt og afdráttarlaust og óvenju beinskeytt. Þar er hann sagður  krefjast þess að Þjóðverjar leggi sitt að mörkum til þyrlu og fallhlífasveita Atlantshafsbandalagsins NATO í Afganistan. 

Í bréfinu mun hann einnig kvarta undan klofningi innan NATO á milli ríkja sem taki þátt í hernaðinum í Afganistan og þeirra sem gera það ekki. Segir hann klofninginn vera ógn við trúverðugleika bandalagsins og leggja ósanngjarnar byrgðar á Bandaríkjaher. Fyrr í þessari viku hótaði forsætisráðherra Kanada að kalla herlið sitt heim frá Afganistan sendi NATO-ríkin ekki 1.000 manna liðsauka til landsins.

Bandaríkin, Bretland, Ástralía, Holland og Kanada bera nú hitann og þungann af hernaði Vesturveldanna í Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert