Arabaríkin dragast aftur úr í menntamálum

Nemendur krefjast umbóta í menntamálum í Manila, höfuðborg Filippseyja.
Nemendur krefjast umbóta í menntamálum í Manila, höfuðborg Filippseyja. AP

Alþjóðabankinn hefur varað við því að arabaríkin séu að dragast aftur úr öðrum heimshlutum varðandi menntun almennings og að þörf sé á skjótum aðgerðum til að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi á svæðinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Fram kemur í skýrslu bankans að leiðtogar arabaríkjanna ættu að leggja megináherslu á menntun þar sem bein tengsl séu á milli menntunar almennings og efnahagsþróunar.

Þá segir að ekki hafi orðið vart sambærilegrar aukningar á menntun almennings í arabaríkjunum og í Asíu og Rómönsku-Ameríku þrátt fyrir að menntun hafi víða orðið aðgengilegri, ekki síst fyrir konur. Eru Djibouti, Jemen, Írak og Morokkó nefnd sérstaklega sem lönd þar sem lítil framþróun hefur átt sér stað í menntamálum.

„Það er kominn tími til að ríki leggi áherslu á að bæta gæði menntunar og að sjá til þess að nemendur fái þau tæki sem þeir þurfa á að halda til að svara þörfum vinnumarkaðarins. Eftirspurnin er eftir hæfni til að leita lausna, gagnrýnni hugsun, frumkvæði og endurmenntun kennara,” segir Marwan Muasher, talsmaður bankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert