„Frystikista Bandaríkjanna“

Bærinn International Falls í Minnesota, við kanadísku landamærin, fékk fyrir nokkrum dögum einkarétt á að kalla sig „frystikistu Bandaríkjanna,“ og bar því nafn með rentu í gær þegar frostið þar fór niður í 40 gráður, sem var met. Íbúar héldu sig innandyra, nema til að fara í vinnuna.

„Það verður ekki öllu kaldara ... alveg logn - bara kuldi,“ sagði Nick McDougall, starfsmaður á bensínstöð í bænum.

Fyrra kuldamet í bænum var 38 gráðu frost, sem kom 1967. Í nágrannabænum Embarrass var jafn kalt í gær, en mesti kuldi sem mælst hefur í Minneapolis, sem er mun sunnar í Minnesota, er 41 gráðu frost, sem kom í janúar 1888.

Er leið nær hádegi í dag hafði hlýnað verulega í „frystikistunni,“ og frostið var ekki nema 28 gráður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert