Árásarmaðurinn nafngreindur

Maðurinn sem réðst inn í fyrirlestrarsal í háskólanum í Illinois í gærkvöldi hét Stephen Kazmierczak. Sex létust í árásinni en Kazmierczak framdi sjálfsvíg í kjölfar skotárásarinnar. Kazmierczak var 27 ára gamall og var fyrrum nemandi við skólann. 15 særðust í árásinni.

Samkvæmt Sky hefur lögregla nafngreint nokkur af fórnarlömbum Kazmierczak. Daniel Parmenter, 20 ára, Catalina Garcia, tvítug,Ryanne Mace, 19 ára og Julianna Gehant, 32 ára.

Rektor skólans, John Peters, segir að fjórir hafi látist strax, þrír nemendur og árásarmaðurinn en þrír létust á sjúkrahúsi.  

Háskólinn er í um 100 km fjarlægð frá Chicago í Illinois-ríki. Um 25.000 nemendur stunda nám við hann. Árásarmaðurinn var svartklæddur með dökk sólgleraugu er hann gekk inn í fyrirlestrarsal þar sem 140 jarðfræðinemendur sátu. Hann var vopnaður haglabyssu og tveimur skammbyssum.

Á blaðamannafundi í dag sagði Donald Grady lögregluvarðstjóri í N-Illinois, að  Kazmierczak hafi ekki verið þekktur af öðru en góðu og ekki vitað til þess að hann ætti við andlega vanheilsu að stríða. Hann hafi verið góður námsmaður og ekkert sem benti til þess að hann gripi til aðgerða líkt og hann gerði í gærkvöldi. Hann bætti hins vegar við að vitað væri að  Kazmierczak hefði verið á lyfjum þar til fyrir nokkrum vikum en gaf ekki upp um hvaða lyf væri að ræða.

Frá skólanum í morgun
Frá skólanum í morgun Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert