Vilja að dauðarefsing verði tekin upp að nýju í Bretlandi

Steve Wright.
Steve Wright.

Ættingjar kvennanna fimm, sem myrtar voru við ensku borgina Ipswich í desember 2006, segja að réttlætinu verði ekki fullnægt yfir morðingjanum nema dauðarefsing verði tekin á ný upp í Bretlandi. Kviðdómur fann 49 ára gamlan karlmann í dag sekan um morðin fimm og verður dómur kveðinn upp yfir honum á morgun.

Sky fréttastofan hefur eftir mági einnar konunnar, að þessir glæpir verðskuldi hina endanlegu refsingu og það þýði aðeins eitt. 

Þá er haft eftir ættingja annarrar konu að sá, sem hafi bundið enda á líf fimm ungra kvenna muni njóta verndar, fæðis og klæða það sem eftir er ævinnar. „Réttlætinu hefur á engan hátt verið fullnægt," segir hann.

Steve Wright var fundinn sekur um að hafa kyrkt fimm vændiskonur og skilið lík þeirra eftir á víðavangi utan við Ipswich. Wright viðurkenndi fyrir dómi að hafa átt mök við fjórar af konunum en neitaði því að hafa myrt þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert