Allir fiskistofnar í hættu

Achim Steiner, yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að loftslagsbreytingar, ofveiði og mengun geti sameiginlega valdið því að allir helstu veiðistofnar heimsins hrynji innan nokkurra áratuga.

„Þegar þetta kemur allt saman er augljóst, að hugsanlega er verið að reka síðasta naglann í líkkistu sjávarútvegsins," sagði Steiner við blaðamenn í Mónakó í dag. Þar stendur yfir ráðstefna á vegum Umhverfisstofnunar SÞ þar sem fulltrúar 150 þjóða taka þátt, þar á meðal 100 umhverfisráðherrar. Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, er í Mónakó.

Loftslagsbreytingar hafa aukið enn á önnur eldri vandamál, svo sem ofveiði, því hækkandi hitastig sjávar skaðar kóralrif, ógnar hrygningarsvæðum túnfisks og breytir hafstraumum og þar með útbreiðslu svifs.

„Málið snýst ekki um hvort við eigum að hætta veiðum heldur hvernig við bregðumst við loftslagsbreytingum sem valda áður óþekktum áhrifum," sagði Christian Nellemann, aðalhöfundur nýrrar skýrslu Umhverfisstofnunar SÞ, sem nefnist In Dead Water.

„Hættumerkin verða stöðugt fleiri og það mun sennilega taka milljón ár fyrir hafsvæðin að ná sér eftir þessar breytingar."

Í skýrslunni kemur fram, að þau svæði þar sem áhrifin eru mest eru jafnframt gjöfulustu fiskimið heims um þessar mundir.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert