Stuðningur við Sarkozy fer dvínandi

Það er óhætt að segja að Nicolas Sarkozy sé ekki …
Það er óhætt að segja að Nicolas Sarkozy sé ekki vinsælasti Frakkinn um þessar mundir. Reuters

Aðeins einn af hverjum þremur Frökkum styður Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta, að því er fram kemur í nýrri skoðanakönnun. Stuðningur við hann hefur aldrei mælst lægri, en framundan eru sveitastjórnarkosningar í landinu.

Samkvæmt skoðanakönnuninni sögðust 33% svarenda hafa trú á stefnu forsetans. Þetta er fjögurra prósentustiga fall frá því í janúar. 61% svarenda segjast hins vegar ekki hafa trú á Sarkozy.

Alls tóku 1.003 þátt í könnuninni sem var gerð fyrir tímaritið Valeurs Actuelles þann 20. febrúar sl. Það var þremur dögum áður en forsetinn lét miður falleg ummæli falla um mann sem vildi ekki taka í höndina á forsetanum á landbúnaðarsýningu í París.

Stuðningur við Sarkozy hefur verið í frjálsu falli frá áramótum. Hann naut hins vegar um 60% stuðnings fyrstu mánuðina eftir að hann tók við embættinu.

Að sögn þeirra sem unnu skoðanakönnuna er talið líklegt að lífstíll forsetans fari í taugarnar á frönskum kjósendum. Sarkozy gifti sig í þriðja sinn þegar hann gekk að eiga fyrrum fyrirsætuna Cörlu Bruni nú í febrúar, en hann skildi við fyrrum eiginkonu sína, Ceciliu, í október. Margir kjósendur telja að Sarkozy hafi gleymt kosningarloforðum sínum, en hann hét því m.a. að auka kaupmátt Frakka. 

Margir hafa áhyggjur af hagkerfinu og þá eru margir ósáttir við það hvernig Sarkozy stendur sig í forsetahlutverkinu. 56% svarenda, sem er 11 prósentustiga hækkun, segja að forsetahlutverkið eigi engan veginn við Sarkozy.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert