Ný kenning um morðingja Palmes

Olof Palme.
Olof Palme. AP

Sænskur blaðamaður leiðir að því líkum í nýrri bók, að sá sem myrti Olof Palme, forsætisráðherra Svía, árið 1986, hafi verið leigumorðingi og fasistaleiðtogi frá Chile, sem var staddur í Stokkhólmi þegar morðið var framið. Fjallað er um þetta í danska blaðinu Politiken í dag.

Blaðamaðurinn, Anders Leopold, segir í bók sinni, Det svenska trädet skall fällas, að Roberto Thieme, sem nú er 65 ára að aldri, hafi á þessum tíma verið leiðtogi fasistasamtakanna Patria y Libertad, sem m.a. nutu fjárstuðnings frá bandarísku leyniþjónustunni CIA. Thieme hafi einnig verið leigumorðingi í öryggisþjónustu Chile.

Eftir að herforingjastjórn Augustos Pinochelts náði völdum í Chile á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar veitti Svíþjóð mörgum pólitískum flóttamönnum frá Chile hæli. Olof Palme var því ekki efstur á vinsældalista herforingjanna.

Palme sjálfur sagði í viðtali við Svenska Dagbladet  árið 1979, að hann hafi fengið að vita það árið 1975, að hann væri á dauðalista herforingjastjórnarinnar í Chile. Leopold segir í bók sinni, að herforingjastjórnin hafi ráðið Roberto Thieme til að myrða Palme.

Thieme og fleiri samstarfsmenn hans í Patria y Libertad skrifuðu árið 2004 undir yfirlýsingu þar sem þeir báðust afsökunar á þeim hörmungum sem þeir hefðu kallað Chilebúa á stjórnarárum herforingjanna. 

Olof Palme var forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 1969-1976 og aftur frá 1982 til 1986 þegar hann var skotinn til bana á mótum Sveavägen-Tunnelgatan í Stokkhólmi. Morðið hefur aldrei verið upplýst en líklegast hefur þótt, að sænskur smáglæpamaður hafi orðið honum að bana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert