Vont að heita Kurt

Teiknarinn Kurt Westergaard, líklegast sá þekktasti af 82 sem heita …
Teiknarinn Kurt Westergaard, líklegast sá þekktasti af 82 sem heita því nafni í Danmörku Reuters

Það er ekkert gamanmál í Danmörku þessa dagana að heita Kurt Westergaard, hvort sem nafnið er stafað með einföldu eða tvöföldu vaffi. 82 alnafnar skopmyndateiknarans umtalaða búa í Danmörku og hafa margir þeirra fengið hringingar og jafnvel morðhótanir.

Nyhedsavisen segir frá því í dag að Kurt Westergaard, kaupsýslumaður frá Aabenraa, sé einn þeirra sem fengið hafa hótanir.

Westergaard segist hafa fengið fjórar morðhótanir í tölvupósti og annað eins í síma. Það versta segir hann vera að börn hans hafi einnig fengið símhringingar og að fjölskyldan óttist að þeim verði jafnvel rænt.

Verstu hótanirnar bárust fyrir tveimur árum þegar skopmyndirnar af Múhameð birtust fyrst í dönskum blöðum og segist Westergaard hafa rætt við lögreglu vegna hótananna.

Hinn raunverulegi Kurt Westergaard, teiknarinn þ.e.a.s., er að vonum leiður yfir þessu.

„Þeir hafa þó tekið eitthvað af þeirri miklu pressu sem hefur verið á mér. Eins og einn vinur minn segir: Þetta er slæmt fyrir Kurtana", segir teiknarinn við Nyhedsavisen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert